Þú ert hér: Verkefni um víða veröld / Au Pair / Au pair Evrópa / England
25.1.2020 : 20:39 : +0000

Í stuttu máli

Við erum að leita eftir þroskuðum, sjálfstæðum og jákvæðum einstaklingum, sem hafa gaman af því að vera með og umgangast börn og hafa áhuga á að kynnast nýrri menningu

Aldurstakmörk: 18-27 ára, vera ógiftur og barnlaus.

Starfsreynsla:  Umsækjendur verða að hafa góða reynslu af barnagæslu, kunna til húsverka og gott að hafa undirstöðukunnáttu í matreiðslu.

Tungumálakunnátta: Umsækjandi verður að hafa þokkalega grunn kunnáttu í ensku. 

Umsóknarfrestur: 8 - 16 vikum fyrir áætlaðan brottfarardag. Getur stundum verið styttra. 

Lengd dvalar: 3-12 mánuðir.  Hægt er að leggja í hann allan ársins hring. Au pair störf í styttri tíma eru aðallega í boði á sumrin.

Annað: Ökuskírteini er kostur en ekki nauðsynlegt (oft fær au pair aðgang að bíl eða alveg til eigin nota) hreint sakavottorð og góð heilsa. 

Um landið

Höfuðborg: London 7,2 milljónir íbúa
Stærð: 242.432 km2
Mannfjöldi: 59,8 milljónir íbúa
Tungumál: Enska – mikill fjöldi af mállýskum.
Trúarbrögð: Enska biskupakirkjan, kaþólikkar, meþódistar, islamstrú, gyðingatrú, sikh og hindu finnast líka. 
Gjaldmiðill: Breskt sterlingspund
Tímamismunur: +1 (GMT) að sumri. 00 (GMT) að vetri
Rafmagn: 240V AC 50 Hz. Þrír pinnar. Spennubreytir (converter) nauðsynlegur
Landsnúmer: +44
Veðurfar: Bretar eru nánast jafnvel heillaðir af veðrinu og Íslendingar.  Veðrið er samt almennt milt.  Nóvember og febrúar eru kaldir og dagarnir stuttir, mars og október líka.  Apríl til september eru mjög góðir og er meðalsumarhitinn um 21°C.

 

Hvernig kemstu til Bretlands?

Á hverju degi er fjöldi ferða til Englands í gegnum Icelandair og Wowair.

 

 

 

Um England

 

Better English, anyone?

Í fjölþjóðlegum heimi eru gerðar miklar kröfur um kunnáttu í ensku.

 

  ,,Það er vandfundið það starf á Íslandi þar sem góð enskukunnátta er ekki nauðsynleg eða æskileg. Samhliða hnattvæðingu í viðskiptum, þekkingarleit og menningu verður til umhverfi þar sem fólk frá mismunandi menningarsvæðum starfar að sameiginlegum markmiðum.  Tungumálið sem notað er í viðskiptum, í vísindum, í fræðsluefni um nýja tækni er enska.  Almenn og góð enskukunnátta er ekki aðeins kostur heldur grundvallaratriði – bæði fyrir afkomu einstaklingsins og samkeppnishæfni atvinnulífsins í heild.”

(Aðalsteinn Leifsson, forstöðumaður MBA náms og lektor við Háskólann í Reykjavík)

 

Saga Bretlands er löng og eflaust gat Elísabet I og allt enska kóngafólkið ekki ímyndað sér hvaða áhrif nýlendustefna þeirra myndi hafa á menningu, mat og mállýskur landsins.  Íbúar heimsveldisins hafa komið alls staðar að og gert Bretland að einu mesta fjölmenningar-samfélagi heimsins.  Því má nú finna nokkrar af mest spennandi borgum heimsins með frábæru skemmtanalífi, ótrúlegu úrvali af veitingastöðum, óendanlegan fjölda af menningarviðburðum og flottum verslunum.  Og ef þú þreytist á þessu geturðu alltaf leitað út fyrir borgarmörkin, - í ekta breska smábæi eða í angandi græna sveitasæluna.

 

Upplifðu England með því að gerast au pair í Englandi. Kynnstu landi og þjóð, samhliða því að fullkomna enskukunnáttuna.  

 

Eftir að hafa dvalið sem Au pair í Englandi mun aukin enskukunnátta þín svo sannarlega gagnast þér bæði í leik og starfi. 

 

Au Pair England býður þér upp á að upplifa England, sem hluti af enskri fjölskyldu.  Þannig kynnist Au Pair daglegu lífi Breta, eignast vini alls staðar að úr heiminum og fær tækifæri til að ferðast um landið.   

 

Við bjóðum þér að kynnast landinu frá fyrstu hendi sem hluti af enskri fjölskyldu.

 - Í Au Pair England!

Um vinnuna

Starfið felst í að sinna börnum fjölskyldunnar og vinna létt heimilisstörf. Dæmi um verkefni gæti verið að fylgjast með og leika við börnin, klæða þau og þrífa, útbúa mat fyrir börnin, taka til í herbergjum þeirra og önnur létt heimilisþrif. Þvo af börnunum, aka þeim í skóla og í frístundir, aðstoða þau við heimalærdóminn og kenna þeim um þitt eigið land og venjur.

 

Launin eru 75-95 pund í vasapening á viku og er vinnutíminn að jafnaði 25 - 35 klst á viku og barnagæsla tvö kvöld í viku. Au Pair fá alltaf sérherbergi og fullt fæði á meðan á dvöl stendur. Einn til tveir frídagar í viku.

 

Í frítíma sínum getur au pair sótt enskunámskeið, stundað ýmsa afþreyingu með fjölskyldunni eða öðrum au pairum. Þegar komið er út fær Au pair upplýsingar um aðrar au pair á svæðinu sínu frá samstarfsaðilum okkar í Englandi, þau halda einnig nokkra skipulagða viðburði yfir árið fyrir au pair þátttakendur þeirra og er frjáls þátttaka.

Innihald & verð

Eftirfarandi er innifalið í verkefninu Au pair England:

  • 75-95 pund í vasapening á viku.
  • Fullt fæði og sérherbergi á meðan á dvöl stendur.
  • Vinnutími 25-35 klst. og tvö kvöld í viku
  • Ein vika frí á launum eftir 6 mánaða vinnu og tvær vikur eftir 12 mánuði í vinnu.
  • Au pair starf í 3 -12 mánuði. Fer eftir árstíma.
  • Sérvalin gistifjölskylda.
  • Stuðningur á meðan á dvöl stendur.

Hvað er ekki innifalið?

  • Flug til & frá Englandi
  • Ábyrgðar- & ferðatrygging

Evrópska sjúkratryggingarkortið þarf að taka með til að vera heilbrigðis- og slysatryggður. Au pair í Englandi þurfa ekki áritun.

Verð

Skráningargjald 15.000 ISK - Greiðist við skráningu

Verkefnagjald 20.000 ISK - Greiðist eftir að fjölskylda er fundin