Þú ert hér: Verkefni um víða veröld / Au Pair / Au pair Evrópa / Írland
29.1.2020 : 18:19 : +0000

Í stuttu máli...

Aldurstakmark: 18-30 ára
Nám: Ekki er krafist lágmarks menntunar, en góðra meðmæla og reynslu
Starfsreynsla: Umsækjendur verða að hafa góða reynslu af barnagæslu og kunna til heimilisstarfa
Tungumálakunnátta: Sæmileg enska
Bílpróf: Ekki skilyrði, en mikill kostur
Umsóknarfrestur: 1-2 mánuðum fyrir áætlaðan brottfarardag
Lengd dvalar: 4-12 mánuðir
Annað: Áhugi fyrir umönnun barna, hreint sakavottorð og góð heilsa
Bónus: Algengt er að Au pair fái bónus í lok velheppnaðrar dvalar (200-500 evrur)

 

Við erum að leita eftir þroskuðum, sjálfstæðum og jákvæðum einstaklingum, sem hafa gaman af því að vera með og umgangast börn og hafa áhuga á að kynnast nýrri menningu.

Um landið

Höfuðborg: Dublin
Stærð: 70.273 km2
Mannfjöldi: 4,7 milljónir
Tungumál: Enska og írska
Trúarbrögð: Kristin trú (flestir rómversk kaþólskir)
Gjaldmiðill: Euro €
Tímamismunur: Veturna GMT tími, sumrin GMT + 1 klst
Rafmagn: 230V 50 Hz
Landsnúmer: +353
Stjórnarfar: Lýðveldi

Hvernig kemstu frá Íslandi til Írlands?

Sjá upplýsingar um flugfélög og leitarvélar hér.

Au pair Írland

Írland, öðru nafni Éire eða eyjan græna lá lengi í skugga hinna voldugu nágranna, Bretanna. Fáir heimsóttu eyjuna heim, en þeir sem gerðu það töluðu um fegurð sveitanna, fornminjar, óðalssetrin í fögrum görðum og um fyndna, vingjarnlega og fátæka íbúa.

 

Írar máttu þola margra alda kúgun af hendi Englendinga sem hófst árið 1172 þegar Hinriki II Englandskonungur hóf að sölsa undir sig írsk lönd. Eftir margar misheppnaðar byltingar Íra gegn Englendingum var Írlandi loks árið 1920 skipt í tvö fullvalda ríki innan breska heimsveldisins, Norður Írland sem enn tilheyrir bresku krúnunni og svo hið kaþólska Írland, sem nær yfir bróðurpart landsins. 1949 varð fullveldið Írland lýðveldi. Blóðugur skæruliðahernaður hélt áfram enn um sinn á Norður Írlandi, þar sem íbúar skiptust í tvær fylkingar, kaþólikka og mótmælendur. Sumir íbúanna vildu sameinast kaþólska lýðveldinu, en aðrir vera áfram í breska heimsveldinu. Þessari óöld lauk árið 1998 með friðarsamkomulagi.

 

Írar hafa mátt þola ýmislegt í gegnum aldirnar og eiga merka menningar og sagnaarfleifð.  Vinsælt var af forn víkingum að gera þar strandhögg og taka traustataki bæði eignir, og fólk, sem það svo gerði að þrælum. Melkorka nokkur konungsdóttir, sem er okkur vel kunn úr Laxdælu átti að hafa verið ein af herfangi víkinga þar. Sagan segir að hún hafi verið seld sem ambátt til Höskulds og hann hafi eignast Ólaf pá með henni, föður Kjartans Ólafssonar, sem var lofaður Guðrúnu Ósvífursdóttur.

 

Á miðri 19. öld reið kartöfluhungursneyðin mikla yfir eyjuna. Milljónir manna sultu með þeim afleiðingum að um helmingur þjóðarinnar svalt í hel eða flutti úr landi s.s. til Bretlands, Norður-Ameríku og Ástralíu. Íbúafjöldi eyjunnar hrapaði úr 8 milljónum og niður í 4,4 milljónir árið 1911. Sami mannfjöldi hefur ekki náðst síðan.

 

Írum tókst að halda hlutleysi í seinni heimsstyrjöldinni, en það kom ekki í veg fyrir mikinn skort almennings á mat og kolum. Árið 1973 gekk Írland í Evrópusambandið.

 

Loks á 10. áratugi síðustu aldar fór að birta til á undraverðum hraða hjá þjóðinni og fólk fór að flykkjast til landsins. Nú hefur það snúist við og margir Írar yfirgefa nú land sitt vegna atvinnuleysis. Kreppan sem nú hefur riðið yfir heimsbyggðina hefur vissulega snert Íra illa.

 

Írar eiga sitt eigið móðurmál, írsku en í gegnum aldirnar hefur enska orðið útbreiddasta tungumálið þar í landi með hinum töfrandi írska hreim.

 

Eflaust hefur þú þínar skoðanir á eyjunni grænu, líkt og aðrir í heiminum,-  en við bjóðum þér að kynnast landinu frá fyrstu hendi sem hluti af írskri fjölskyldu.

 

Í Au Pair Írland!

Um vinnuna

Au pair Írland býður þér upp á að upplifa Írland sem hluti af írskri fjölskyldu.  Þannig kynnist þú hefðbundnu lífi Íra af eigin raun, eignast vini hvaðanæva úr heiminum og færð tækifæri til að ferðast og kynnast landinu. Að auki bætir þú enskukunnáttu þína. Reynslan, sem þú færð sem Au Pair í nýju landi mun auka sjálfstæði þitt  og þroska, sem sannarlega mun koma sér vel til framtíðar litið.

 

Starfið felst í því að sinna börnum fjölskyldunnar og hjálpa til við létt heimilisstörf. Dæmi um verkefni gæti verið að fylgjast með og leika við börnin, klæða þau og þrífa, útbúa mat fyrir börnin, taka til í herbergjum þeirra og þvo af börnunum, aka þeim í skóla og í frístundir, aðstoða þau við heimalærdóminn og kenna þeim um þitt eigið land og venjur.

 

Launin eru 85-100 evrur í vasapening á viku og er vinnutíminn að jafnaði 35 klst. á viku. Au pair er alltaf úthlutað sér herbergi og fær fullt fæði á meðan á dvöl stendur. Lágmark er einn frídagur á viku og einnar viku frí á launum eftir hverja 6 mánuði. Sumir hafa aðgang að bíl, stundum býðst aðstoð við að greiða ferðakostnaðinn og að fara á tungumálanámskeið. Algengt er einnig að Au pair fái 200-500 € aukalega í lok dvalar frá fjölskyldu.

Innihald

 • Handbók Nínukots
 • Frá 85-100 evrur í vasapening (laun) á viku
 • Fullt fæði og sér herbergi á meðan dvöl stendur
 • 50 EUR ferðastyrkur vegna flugs til Írlands og 50 EUR ferðastyrkur ef dvalið er 9 til 12 mánuði
 • Au pair starf í 4-12 mánuði
 • Frí í eina viku á launum eftir 6 mánuði
 • Gistifjölskylda að eigin vali
 • Stuðningur á meðan á dvöl stendur
 • Kynningarbæklingur um Írland
 • Upplýsingarhandbók m/ hagnýtum upplýsingum og leiðbeiningum um starfið
 • Tengiliður í dvalarlandi á meðan á dvöl stendur
 • Tengslanet við aðrar Au pair
 • Neyðarnúmer 24/7

 

Hvað er ekki innifalið?

 • Flug til/frá Írlandi
 • Tungumálanámskeið er valkvætt 
 • Heilbrigðis, ferða- og ábyrgðatrygging

 

Au pair getur notað Evrópska sjúkratryggingarkortið á Írlandi sér að kostnaðarlausu. Hægt er að sækja um það hjá Sjúkratryggingum Íslands (www.sjukra.is). Kortinu er framvísað ef viðkomandi þarf á aðstoð læknis að halda.

Verð

Skráningargjald 15.000 ISK - Greiðist við skráningu

Verkefnagjald 20.000 ISK - Greiðist þegar fjölskylda er fundin