21.1.2020 : 11:46 : +0000

Um vinnuna

Ertu góður í ensku? Viltu miðla kunnáttu þinni til góðs um leið og þú bætir eigin færni með daglegri notkun? Þá er verkefnið sjálfboðavinna Zanzibar eitthvað fyrir þig.

 

Aðstoðaðu við skemmtilegt og gefandi leikskólastarf, kennslu ungmenna og fullorðinna til að hjálpa þeim að fá vinnu og við ýmis samfélagsleg verkefni í sjálfboðavinna Zanzibar.

 

Eyjaklasarnir í Zanzibar eru í skelfilegri þörf fyrir aðstoð í menntakerfinu sínu. Þekking og fræðsla sem flest okkar telja sjálfsagða hefur aldrei hlotnast fjölda fólks á eyjunum. En menntun er það, sem flestir telja lykilinn að betri framtíð næstu kynslóðar og um leið og það gerist muni það hjálpa þeim eldri, sem nú eru ófærir um að bæta félagslega og efnahagslega stöðu sína. 

 

Ríkisreknu skólarnir í Jambiani hafa nú í grunn- og framhaldsskólunum um 1300 nemendur. Grunnskólakennslan fer fram á hinu opinbera tungumáli Kiswahili, en eftir grunnskólaprófin við aldurinn 12 -13 ára færast nemendur upp í framhaldsskóla og þá fer kennslan öll fram á ensku. Aðeins 20% nemenda komast í gegnum prófin og geta haldið áfram námi. Hin 80% verða að sætta sig við brottfall eða “drop out”.

 

Jambiani er þorp á suðurhluta hinnar fallegu, kyrrlátu austur strandar Zanzibar. Þar dvelur þú mest af tímanum sem sjálfboðaliði. Aðeins klukkutíma akstur þaðan er til hinnar þekktu Zanzibar city eða Stone Town, hinnar gömlu, sögufrægu borgar. Jambinai er ílangt þorp sem teygir sig meðfram strandlengjunni. Þar er ótrúlega falleg, hvít strandlengja þar sem þú getur gengið að því er virðist endalaust í flauelsmjúkum sandinum. Þú munt upplifa hrífandi sólaruppkomu og njóta þess að svamla í heitu vatninu, en dýrmætast af öllu er að þú færð innsýn í líf eyjaskeggja, færð að gefa af þér til samfélagsins og öðlast fjöldann af dýrmætum minningum.

 

Ferðaþjónusta er talinn vera mesti vaxtabroddurinn í Zanzibar.  Því er í gangi herferð í ferðaþjónustugeiranum í til að bregðast við ýmsum vandamálum. Þar á meðal er fátækt, menntunarskortur, kynjamismunur og ýmsir umhverfisþættir. Ferðaþjónustuskóli til þjálfunar var stofnaður til að taka á þessum vandamálum og eins til að tækla það stóra vandamál að svo margir erlendir starfsmenn eru ráðnir í ferðaþjónustustörfin í Jambiani í stað heimamanna. Þjálfunarskólinn leggur áherslu á að þjálfa heimamenn svo þeir séu færir um að fá starf í nærliggjandi ferðaþjónustu. Sem sjálfboðaliði kennir þú nemendum skólans ensku og þá bæði fullorðnum og unglingum.  Markmiðið er að kenna öllum nemendum þjálfunarskólans það góða ensku að það dugi til að komast inn í 2 ára réttindanám í hótel og veitingaskóla. Námið þar er frítt og það að komast inn hefur þegar gert gæfumuninn fyrir marga.

 

Sem sjálfboðaliði muntu dvelja part úr hverjum degi í leikskóla og kenna ensku, stærðfræði og taka þátt í ýmsu skapandi starfi. Leikskólakennarnir vilja svo gjarnan bæta eigin kunnáttu líka. Einng máttu búast við að að taka þátt í enskukennslu ýmissa áhugasamra námshópa síðdegis. Það gæti verið fótboltalið í þorpinu eða kvennaklúbbar sem vilja bæta enskuna sína. Þú gætir einnig verið þáttakandi í tómstundastarfi barna svo sem íþróttaleikjum, listum og handavinnu, sögulestri, spilaleikjum eða tekið þátt í að hreinsa ströndina og planta trjám.

 

Þú þarft ekki að vera menntaður kennari til að taka þátt í Sjálfboðavinna Zanzibar. 

 

Annað: Ef þú vilt sérstaklega sækja um að taka þátt í kennslu í grunnskóla eða gagnfræðiskóla, þá er það möguleiki. Þá er athugað hvort það er hægt á þeim tíma sem þú vilt fara. Prófskírteini og starfsferilskrá þarf að fylgja umsókn.

Innihald og verð