Þú ert hér: Verkefni um víða veröld / Sjálfboðavinna / Asía / Malasía
25.1.2020 : 11:36 : +0000

Sjálfboðavinna Malasía

Malasía í Suðaustur Asíu er heillandi viðkomustaður allra sem vilja kynnast Asíu. Það er eitt af fjölbreytilegustu löndum í heimi, bæði menningarlega og landfræðilega séð.
Landið skiptist á milli tveggja landsvæða, Vestur-Malasíu sem er meginhlutinn og nær yfir suðurhluta Malakkaskaga og svo Austur-Malasíu, sem er á eyjunni Borneó. Suður-Kínahaf liggur þarna á milli. Borneó er þriðja stærsta eyja heims og deila þrjú lönd henni á milli sín, Malasía, Indónesía og Brúnei. Sá hluti sem Malasía ræður yfir á Borneó á því landamæri að smáríkinu Brunei í norðri og Indónesíu í suðri. Vestur-Malasía liggur að Tælandi í norðri og mjótt sund skilur hana frá Singapúr í suðri.

Malasía er litríkt hitabeltisland, þakið frumskógi með gríðarlega fjölbreyttu lífríki. Regnskógarnir þekja tvo þriðju af landinu, allt frá háum þokusveipuðum fjallstindum til stranda, þar er fjöldi heillandi, lítilla eyja, sannkallaðar paradísir eins og Tioman, Redang, Perenthian og Langkawi sem eru með kyrrlátar, flauelsmjúkar strendur og bjóða upp á alvöru sólbað en einnig alls konar vatnaíþróttir. Í skógunum er fjöldi tegunda af villtum, spennandi dýrum, þar á meðal hinum sjaldgæfa orangútur, og ríkulegu gróðurfari (eitt af 17 fjölbreyttustu í heimi). Í bland við þetta heillandi dulúðuga landslag eru borgir sem geyma forn menningaverðmæti eins og ævagamlar moskvur, indversk og kínversk hof og einnig nútímabyggingar eins og himinháa skýjakljúfa. Eitt helsta kennileiti í Kuala Lumpur, höfuðborg landsins, er einmitt einn slíkur, tvíburaturnarnir – Petronas Twin Tower sem eru 452 metra að hæð. Þeir voru einu sinni hæstu turnar í heimi.

Matgæðingar og þeir sem vilja versla koma að allsnægtarborði í Malasíu um leið og rölt er á milli fortíðar og nútíðar. Hver sá sem vill kitla bragðlaukana og fá einstaka matarupplifun nýtur hinna fjölmenningarlegu matseðla sem samsuða margra, kryddelskandi þjóðerna hefur skapað og gert Malasíu svo þekkta fyrir. Heimsókn á matarmarkaði er ævintýraleg upplifun þar sem margt er í boði sem hinn venjulegi Frónarbúi hefur aldrei kynnst áður. Hvort sem þú vilt rölta um á mörkuðum og kaupa þar eða í hátísku verslunarmiðstöðvum þá er um nóga staði að velja, 15 í Kuala Kumpur, því í viðbót við að borða þá elska Malasíubúar að versla.

Malasía varð til úr 13 smáríkjum. Þessi ríki urðu sammála um að sameinast í eitt ríki árið 1963 og samanstendur það af 9 furstadæmum, sem eiga soldán sem æðsta mann og 4 öðrum ríkjum þar sem æðsti maður er kallaður landsstjóri. Út frá þessari sameiningu hefur skapast þessi skemmtilega samsuða af fjölbreyttum menningarstraumum margra þjóðerna og trúarbragða sem búa saman í friði og sátt. Stjórnafar Malasíu er hefðbundin þingbundin konungsstjórn að breskri fyrirmynd, en það finnst hvergi annars staðar í heiminum að konungur lands sé kosinn á fimm ára fresti bæði af og úr hópi hinna níu soldána. Landstjórarnir fjórir hafa ekki atkvæðisrétt.

Við bjóðum upp á spennandi sjálfboðastarf með orangútum í Perak og í Borneo bjóðum við upp á sjálfboðastarf við kennslu eða byggingavinnu. Einnig er í boði tveggja vikna skoðunarferðalag um Borneo.

Ekki hika taktu stökkið og upplifðu ævintýri í hinni rómuðu Malasíu.

Orangútan - skógarmaðurinn

Um landið

Höfuðborg: Kuala Lumpur
Stærð: 329.847 km2
Mannfjöldi: 31 milljón
Tungumál: Malaysia eða Bahasa Melayu (opinbert tungumál), enska, kínverskar mállýskur, Tamil. Telugu, Malayalam, Panjabi, Thai og mörg frumbyggjamál.
Trúarbrögð: 61% Múslímar (opinber trú), 20% búddistar, 9% kristnir, 6% hindúar.
Þjóðhátíðardagur: 31. ágúst
Þjóðardrykkur og þjóðarréttur: Heitt mjólkurte, Teh tari, hrísgrjón soðin í kókóhnetumjólk, Nasi lemak
Gjaldmiðill: Ringgit (RM eða MYR)
Tímamismunur: +8 (GMT) 
Rafmagn: 230/240 volts - 50 Hz  (þriggja pinna eins og í UK)  
Landsnúmer: +60
Veðurfar: Hitabeltisloftslag, heitt og rakt. HIti fer upp fyrir 30°á daginn og varla niður fyrir 20° á nóttu. Monsúnrigningar. Á vesturströndinni mest rigning maí til október og þurrt janúar og febrúar, austurströndinni mest rigning september til desember og þurrt júní og júlí og í austur Malasíu eða Borneo mest rigining á milli nóvember og febrúar. Sabah í Borneo þurrt í apríl og Sarawak í júní og júlí.

Orangútan - skógarmaðurinn