Ótrúleg og mikil lífsreynsla

Ég heiti Sigdís Oddsdóttir og er 44 ára leikskólakennari á Hellu. Síðastliðið vor komst ég í þá stöðu að “brenna út” í vinnu og þurfti að taka sjálfa mig í gegn, andlega og líkamlega. Einn af þeim þáttum var að fara á markþjálfunarnámskeið, sem í sjálfu sér var alveg frábært, en þar komst ég að því að gæti gert svo miklu meira í lífinu heldur en það sem ég hef verið að gera. Ég setti mér það markmið að fara í sjálfboðavinnu til Afríku, nánar tiltekið til Zanzibar. Ég setti mig í samband við Svanborgu hjá Nínukoti og þá fór boltinn að rúlla. Auðvitað var að mörgu að hyggja áður en ég lagði af stað í ferðina, ég ræddi þetta við eiginmann minn og börn og þau studdu mig heilshugar. Ég var bæði spennt og kvíðin, allt í bland, vissi ekki hverju ég mátti eiga von á og þar að auki var ég að fara ein. Dagana fyrir brottför var ég í sannleika sagt á báðum áttum en ákvað að standa við það sem ég var búin að lofa sjálfri mér, að fara í þessa ferð fyrir sjálfa mig og láta gott af mér leiða í leiðinni. Áður en ég vissi af var komið að þessu. Ég flaug til Dubai og þaðan til Zanzibar. Þar var ég sótt ásamt fleiri sjálfboðaliðum og var þá ferðinni heitið í lítið þorp sem heitir Jambiani. Þegar þangað var komið var vel tekið á móti okkur af starfsfólki í sjálfboðaliðahúsinu. Herbergin í sjálfboðaliðahúsinu og öll önnur aðstaða var algjörlega til fyrirmyndar. Maturinn var líka mjög góður og höfðum við alltaf kokk í húsinu sem eldaði handa okkur ýmsan mat sem maður hafði aldrei smakkað áður. Fyrirkomulagið fyrir vikuna var alltaf það sama, við fórum í leikskólann þar sem við kenndum börnunum fyrirfram ákveðið námsefni. Síðan fórum við á hverjum degi og kenndum fullorðnum ensku. Á miðvikudögum hittum við Kanga ladies, sem er hópur ekkna og þær vinna fyrir sér með því að sauma og búa til alls kyns nytjahluti. Á hverju miðvikudagskvöldi fórum við svo í “local meal” en þá er okkur boðið í mat heima hjá einhverjum af kennurunum í skólanum. Þar var alltaf gaman að koma, allskonar nýstárlegur matur og aðrir siðir en maður á að venjast. Um helgar réðum við hvað við vildum gera, margir sjálfboðaliðar fóru á hótel rétt hjá og böðuðu sig í sólinni alla helgina. Það var einnig hægt að fara í ýmsar ferðir , bæði langar og stuttar og verðið ekkert svo dýrt. Ég fór t.d. í Jozani forrest, en þar lifa villtir apar, The Rock sem er veitingastaður á kletti út í sjó, Stone town , sem er höfuðborgin í Zanzibar og margt fleira.

Það sem stendur upp úr í ferðinni er klárlega allt! Ég get ekki valið eitthvað eitt sem mér fannst skemmtilegast því þetta var svo ótrúleg og mikil lífsreynsla.
Ég hef þegar ákveðið að fara aftur, en þá ætla ég að bjóða börnunum mínum með og leyfa þeim að kynnast því hvernig það er að vera sjálfboðaliði og láta gott af sér leiða. Ég held að það gæti orðið mikill lærdómur fyrir þau.

Ferðin hafði mikil og djúpstæð áhrif á mig. Ég horfi á lífið með öðrum augum og kann betur að meta það sem ég hef. Hluti af hjartanu slær samt enn í Jambiani og ég sakna þess mikið að vera ekki þar.
Ég vil hvetja þig til að kynna þér sjálfboðavinnu á vegum Nínukots, þar er vel haldið utan um alla þætti ferðarinnar og Svanborg alltaf tilbúin til að svara spurningum.
Kýldu bara á það! það er ekki eftir neinu að bíða, fyrst ég gat það þá getur þú það líka.