Malta

Hvenær og hve lengi

Námskeiðið er í boði að vori og hausti og getur dvöl verið frá 1, 2, 3, eða 4 vikum. Fimm daga vikunnar er kennd enska fyrir hádegi, 20 kennslustundir samtals og eftir hádegi er farið í menningar- og skoðunarferðir með leiðsögn. Næsta námsskeið árið 2022 er í maí og hægt að hefja þátttöku dagana 2. 9. 16. og 23. Lokadagur er 27. maí. Í haust er hægt að hefja þátttöku dagana 3.10.17 og 24 október. Lokadagur er 28. október. 

Skólinn og námið

Skólinn er í þægilega staðsettu húsnæði, aðlagað að þörfum nemanda. Þar við er sólríkur húsagarður þar sem notalegt er spjalla og fá sér hressingu á milli kennslustunda. Skólinn hefur starfað í yfir 50 ár og sérhæft sig í að kenna ensku, sem erlent mál. Áhersla er lögð á kennslu í litlum hópum og að mæta getustigi nemenda til að ná sem bestum árangri. Kennarar eru reyndir með viðurkennd próf.

Húsnæði

Tungumálaskólinn býður upp á að velja á milli 3, 4 og 5 stjörnu hótelgistingu, íbúðir, heimagistingu eða stúdenta íbúðir. Stúdentaíbúðirnar eru einfaldar en fullbúnar stúdíóíbúðir. Verð á eins manns stúdíóíbúð með morgunmat er 294 EUR vikan og 2ja manna stúdíóíbúð með morgunmat er 182 EUR vikan á mann. Hótelin er hægt að bóka í samvinnu við skólann eða að bóka sér gistingu sjálfur á eigin vegum.

Saga Möltu

Vegna legu eyjanna voru þær gríðarlega hernaðarlega mikilvægar og guldu íbúar þess ítrekað með heimsókn fjölda innrásaraðila. Föníkumenn, Karþagómenn, Grikkir, Rómverjar, Arabar, Normanar, Spánverjar, Ítalir og Frakkar og síðast Bretar gerðu innrás hver á fætur öðrum í aldanna rás, tóku völdin og ríktu í mislangan tíma. Það var því ekki komist hjá því að allar þessar innrásaþjóðir settu mark sitt á eyjarnar. Þær státa nú af 7000 ára gamalli sögu ríkri af ómetanlegri menningu og minjum. Höfuðborgin, Valetta var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1980.

Árið 60 e.k. var Páll postuli skipreika á eyjunum á leið sinni til Rómar og var bjargað af Maltverjum. Kannski bjargaði það líka kristninni, en alla vega tókst Páli um leið að breiða út boðskap kristninnar á Möltu.

Í dag eru Maltverjar rómversk-kaþólskir og mjög trúhneigðir, sem sést best á kirkjusókn ungra og aldinna í hinum mörgu, ægifögru kirkjum þeirra.

Stórveldistími Möltu stóð frá árinu 1530 til 1798, þegar Mölturiddarar af reglu Jóhannesar, stofnuð á krossferðartímabilinu, réðu ríkjum á Möltu. Hin miklu mannvirki sem þeir reistu svo sem varnarvirki, hallir og kirkjur vekja verðskuldaða undrun og athygli allra sem heimsækja landið. Í lok 18. aldar birtist svo sjálfur Napóleon Bonaparte og sölsaði eyjarnar undir sig, en gleði hans yfir herfanginu varð skammvinn. Maltverjar brugðust hratt við og báðu Breta ásjár og fengu. Í kjölfarið fengu þeir enn eina herraþjóð yfir sig. Bretar ríktu á Möltu í 160 ár eða til ársins 1964 þegar Malta fékk sjálfstæði og varð svo fullvalda og sjálfstætt lýðveldi árið 1974. Vegna langrar veru Breta varð enska jafnt sem maltneska opinbert tungumál eyjaskeggja.

Umsagnir

Vilborg

“Þetta er bara búið að vera frábært, skólinn algjörlega til fyrirmyndar og kennararnir sömuleiðis. Íbúðin bara eins og ég bjóst við, hefði örugglega verið hægt að fá meiri lúxus en ég er fyllilega sátt.” – Klúbbur 50+ Malta

Emelía

“Það er bara svo gott að vera hér. Ég drekk of mikið, læri of lítið, skil ekki neitt, ferðast mikið og borða yfir mig og eyði peningunum í að versla. Svona án djóks þá er ég mjög ánægð með veru mína hér og hlakka til að upplifa hvern nýjan dag hér á Möltu.” – Klúbbur 50+ Malta​