Heillandi strandlengja og töfrandi eyjaklasar, frábær aðstaða til köfunar, litrík þjóðarmenning og aðlaðandi höfuðborg, – gera Mósambík að einu best geymda leyndarmáli suðurhluta Afríku. Átök innanlands eru að baki og landið er á góðri leið að verða fastur liður á lista ferðamanna sem vilja sjá það besta sem Afríka býður upp á. Þjóðfélag Mósambíkur er einstök blanda af afrískum, arabískum, indverskum og portúgölskum áhrifum, – maturinn er kryddaðri, tónlistin jazzaðri og takturinn almennt afslappaðri en hjá enskumælandi nágrönnum landsins. Í þessum leiðangri er boðið upp á viku flatmögun og margs konar afþreyingu á ströndinni í strandbænum Tofo.